Innlent

Þingflokkur VG gegn því að draga ákæru til baka

Björn Valur Gíslason í viðtali á Alþingi fyrr í kvöld.
Björn Valur Gíslason í viðtali á Alþingi fyrr í kvöld.
„Þetta mál verður ekki lagt fram með vilja eða samþykkt VG," sagði Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, um fyrirhugaða þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins, um að skora á saksóknara Alþingi um að draga kæru gegn Geir H. Haarde til baka.

Málið hefur nú verið rætt á þingflokksfundum beggja stjórnarflokkanna. Fyrr í dag tók þingflokkur Samfylkingarinnar þá ákvörðun að vera ekki meðflutningsmenn að tillögunni.

Það er formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sem ber málið á sínum herðum. Hann hefur leitast við að fá stuðning þingmanna úr öðrum flokkum. Ekki er ljóst hvort einstakir þingmenn muni verða meðflutningsmenn tillögunnar, en það yrði þá gert í andstöðu við vilja þingflokka Samfylkingarinnar og VG. Stjórnarþingmennirnir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Kristján L. Möller styðja málið samkvæmt heimildum Vísis. Hreyfingin er þessu andvíg og skiptar skoðanir eru innan Framsóknarflokksins um málið.

„Það er ekki þannig að þingflokkurinn banni fólki að athafna sig," sagði Björn Valur um það hvort það væri mögulegt að Guðfríður Lilja myndi flytja tillöguna ásamt öðrum þingmönnum, þrátt fyrir andstöðu þingflokksins.

Björn Valur segist búast við því að Sjálfstæðisflokkurinn muni reyna að keyra þetta mál inn á Alþingi fyrir jól. „Enda liggur þeim á að losa sinn gamla foringja undan ábyrgð," segir Björn Valur og bætir við: „Sjálfstæðisflokkurinn gæti lagt þetta mál fram og farið svo í sitt þaulæfða málþóf."

Björn Valur segir það ótækt að Alþingi hætti við að gera upp hrunið með þessum hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×