Innlent

45 milljónir settar árlega í að markaðssetja Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hluti borgarráðs Reykjavíkurborgar ásamt borgarstjóra.
Hluti borgarráðs Reykjavíkurborgar ásamt borgarstjóra.
Reykjavíkurborg ætlar að verja árlega 45 milljónum króna vegna stofnunar samstarfsvettvangs um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Fyrirhugað er að samstarfsvettvangurinn muni bera heitið Ráðstefnuborgin Reykjavík og árangurinn af samstarfinu verði metinn að þremur árum liðnum.

Tillagan byggir á ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og verða stofnaðilar ásamt Reykjavíkurborg Icelandair Group og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa sem gefið hafa vilyrði fyrir samtals 50 milljóna króna árlegu framlagi. Stefnt er að því að öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu verði aðilar að samstarfinu og að innan þriggja ára nemi framlög atvinnulífsins tvöföldu framlagi Reykjavíkurborgar.

Tillagan var samþykkt með atkvæðum fjögurra borgarráðsfulltrúa gegn tveimur. Það voru sjálfstæðismenn sem lögðust gegn tillögunni en þeir telja óþarft að stofna sérstaka ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur með 45 milljóna króna framlagi. Þeir telja að farsælla hefði verið að vista verkefnið innan þeirrar starfsemi sem þegar er til staðar, bæði á vettvangi borgar og ríkis, leggja meiri áherslu á að aðrir en hið opinbera kæmu að verkinu og tryggja að ekki væri þörf á svo háu framlagi borgarsjóðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×