Innlent

Syngur Snjókorn falla í fyrsta sinn í áratugi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórhallur Sigurðsson leikari, sem Íslendingar þekkja best undir listamannsheitinu Laddi, flutti jólalagið Snjókorn falla í gær í fyrsta sinn opinberlega frá því að hann tók lagið upp á plötu fyrir um 25 árum síðan. Lagið verður flutt í jólaútgáfu Íslenska listans sem sýnd er á morgun, en Vísir tekur forskot á sæluna og birtir lagið hér.

Laddi segir í samtali við Vísi að það hafi verið mjög skemmtileg upplifun að taka lagið upp. „Við tókum þetta bara með píanóleik og tókum þetta bara í rólegheitum. Þetta er bara mjög jólalegt held ég," segir Laddi. Hann segir að það hafi verið mjög gaman að syngja lagið, en hann hafi verið pínu stressaður vegna þess hve langt er liðið frá því að hann söng það síðast.

Laddi segist annars vera kominn í jólaskap. „Það er bara allt í undirbúningi fyrir jólin og síðustu sýningar núna um helgina fyrir jól," segir Laddi en hann er um þessar mundir að leika í Galdrakarlinum í Oz og Hjónasælu.

Smelltu á hlekkinn „Horfa á myndskeið með frétt" hér fyrir ofan til að sjá jólalagið. Einnig er hægt að horfa á það á sjónvarpsvef Vísis.

Íslenski listinn er á dagskrá á Stöð 2 á morgun klukkan 17.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×