Innlent

Framkvæmdastjóri LSK og stjórnarmenn ákærðir

Flosi Eiríksson, einn hinna ákærðu í málinu.
Flosi Eiríksson, einn hinna ákærðu í málinu.
Ríkissaksóknari hefur ákært fyrrum framkvæmdastjóra og fimm stjórnarmenn í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Í yfirlýsingu sem Flosi Eiríksson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi og einn þeirra sem ákærðir eru hefur sent frá sér, segir að ákæran sé í tveimur liðum. Annars vegar er ákært fyrir að sjóðurinn hafi veitt Kópavogsbæ ólögmæt lán og hinsvegar að hann hafi veitt Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar.

Í stjórninni sátu á sínum tíma Gunnar I. Birgisson, þáverandi bæjarstjóri og stjórnarformaður sjóðsins og þáverandi bæjarfulltrúar Ómar Stefánsson, Flosi Eiríksson, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir. Framkvæmdastjóri sjóðsins var Sigrún Bragadóttir.

Málið snýst um lánveitingar til bæjarfélagsins Kópavogs sem námu 500 til 600 milljónum króna þegar mest lét, að því er fram kom í Fréttablaðinu í frétt um málið í júní 2009. Hlutfall lánveitinga af eignum sjóðsins fór allt upp í tuttugu prósent en leyfilegt hámark samkvæmt lögum er tíu prósent.

„Ákæran kemur mér á óvart enda tel ég öll efnisatriði málsins upplýst," segir Flosi í yfirlýsingunni. „Um lán lífeyrissjóðsins til Kópavogsbæjar frá hausti 2008 er að fullu upplýst. Þau voru á svig við reglur, en ég tel að með þeim hafi hagsmuna sjóðsfélaga verið gætt eins og skylt var og engir fjármunir töpuðust. Á þessum tíma, vikurnar eftir bankahrunið, var ekki mörgum öruggum valkostum til að dreifa og lán til Kópavogsbæjar voru eins trygg og hugsast gat."

„Um seinna atriðið tel ég einnig að fullu upplýst," segir Flosi ennfremur. „Fullyrðingar í bréfi til Fjármálaeftirlitsins, sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri undirrituðu, voru ekki settar fram með vitund annarra stjórnarmanna, þvert á móti. Þetta kom skýrt fram við rannsókn málsins og er skjalfest."

Að lokum segist Flosi ekki tjá sig frekar um málið opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×