Innlent

Ætla ekki að víkja sæti á meðan það er réttað yfir þeim

Hvorki Gunnar Birgisson né Ómar Stefánsson hafa íhugað að víkja sæti úr bæjarstjórn Kópavogs á meðan tekist er á um meint brot þeirra í starfi fyrir dómstólum. Aðrir bæjarfulltrúar segja ákvörðun um að víkja algjörlega í þeirra höndum.

Gunnar Birgisson var stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs þegar meint brot áttu sér stað, en hann er ásamt Ómari Stefánssyni annar tveggja stjórnarmanna sem enn situr í bæjarstjórn eftir að ákæra var gefin út á hendur fimm þeirra. Lánveitingar sjóðsins til sveitarfélagsins námu allt að tuttugu prósentum eigna hans, en leyfilegt hámark samkvæmt lögum er helmingi minna. Gunnar segir stjórnina hafa lagt peningana í bæjarsjóð til að koma þeim í skjól á viðsjárverðum tímum, en bæjarsjóður ábyrgist hvort eð er allar skuldir sjóðsins.

Fréttastofa ræddi við fulltrúa allra flokka í bæjarstjórnarmeirihluta Kópavogs, en enginn þeirra hugðist þrýsta á um að þeir Gunnar og Ómar segðu af sér; það þyrftu þeir sjálfir að eiga við sig, samvisku sína og kjósendur. Rannveig Ásgeirsdóttir, fulltrúi lista Kópavogsbúa, sagðist þó telja eðlilegt að opinberar persónur sem ekki eru óumdeildar í sínum störfum stígi til hliðar á meðan mál af þessum toga eru til lykta leidd.

Ómar Stefánsson vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband í dag, að öðru leyti en því að hann hefði ekki íhugað að víkja sæti í bæjarstjórn á meðan málið er rekið fyrir dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×