Innlent

Foreldrar vilja að börnin fái kornmeti á leikskólum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Nokkurrar andstöðu gætir meðal foreldra leikskólabarna á Akureyri vegna þess að hætt verður að gefa börnunum kornmeti í morgunmat en þess í stað fá þau ávexti. Stofnuð hefur verið undirskriftarsíða þar sem þessum breytingum er mótmælt.

Um áramótin koma til framkvæmda breytingar á matseðli leikskóla á Akureyri. Samkvæmt tilkynningu frá Akureyrarbæ eru breytingarnar gerðar með tilvísun til leiðbeininga frá Lýðheilsustöð um mikilvægi þess að börn fái fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag.

Samkvæmt niðurstöðum konunar sem gerð var meðal foreldra leikskólabarna í vor kemur fram að meirihluti þeirra er andvígur því að í leikskólunum verði ávaxtastund á morgnana í stað hefðbundins morgunverðar, eða um 70 prósent.

Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar og hefur gætt nokkurrar óánægju með þær meðal foreldra. Þá hefur verið stofnuð undirskriftarsíða gegn breytingunum, og þegar hafa tvö hundruð tuttugu og fimm manns skráð nafn sitt þar.

Á síðunni er skorað á bæjarstjórn að endurskoða ákvörðun sína, og verður undirskriftarlistinn afhentur á bæjarskrifstofum Akureyrar þann þrítugasta desember.

Forsvarsmenn Akureyrarbæjar hafa boðað til kynningarfundar með foreldrum barna í leikskólum bæjarins á þriðjudag þar sem breytingarnar verða kynntar, auk þess sem bæjarstjóri, varaformaður skólanefndar og fleiri munu sitja fyrir svörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×