Innlent

Styður ekki samgönguáætlun - vill stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu

Kristján Möller
Kristján Möller
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, segist ekki geta stutt samgönguáætlun sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, lagði fyrir Alþingi fyrir skömmu.

Í samtali við fréttastofu segir Kristján ástæðuna helst vera þá að í drögum að samgönguáætlun sé jarðgangagerð slegið á frest, þannig eigi Norðfjarðargöng ekki að vera tilbúin fyrr en árið 2018 og Dýrafjarðargöng ekki fyrr en 2022.

Kristján segir meðal annars ótækt að umferð verði beint upp í Oddskarð milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. „Enda vegurinn einn sá hættulegasti á landinu," bætir Kristján við en Oddskarðsgöng eru í 630 metra hæð. Þau eru einbreið og grjóthrun algeng í göngunum að hans sögn. Þá er fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað, því sé mikilvægt að samgöngur þar séu með besta móti.

Þá vill Kristján fá 30 milljarða króna lán hjá lífeyrissjóðunum til þess að fara í stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, sem ætti að ljúka á næstu fjórum árum. „Þarna væri hægt að lyfta grettistaki í umferðaröryggismálum á höfuðborgarsvæðinu," segir Kristján og bætir við að slíkt átak fæli í sér mikilvæga innspýtingu í atvinnulífið og gæti að auki skapað þúsund störf.

Hann bætir við að sjaldan hafi svo litlu fé verið varið í almenna vegagerð og nú af hefðbundu ríkisfé, en áætlað er að verja fjórum milljörðum í samgöngumál. „Og svo lága upphæð í þessum málaflokki hef ég ekki séð áður," segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×