Innlent

Vilja að Árni Páll sjái um málefni Íslands fyrir EFTA-dómstólnum

Meirihluti Utanríkismálanefndar lagði fram bókun í kvöld að fyrirsvar í dómsmálum og öðru því sem tengist Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum skuli áfram vera í höndum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskitpamálaráðherra.

Á Vísi fyrr í kvöld var birt tilkynning frá minnihlutanum og í tilkynningu var Birgitta Jónsdóttir ein af þeim sem skrifuðu undir þá bókun að Össur skyldi vera í forsvari fyrir Ísland á þessum vettvangi. Birgitta er áheyrnafulltrúi og hefur ekki atkvæðarétt.

Í bókun meirihlutans segir að ýmis fordæmi séu fyrir þeirri tilhögun að fagráðherra fari með fyrirsvar í tilteknum milliríkjamálum og eðlilegt sé að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi áfram samráð um allar ákvarðanir í málinu við utanríkismálanefnd Alþingis. „Þá hlýtur að teljast æskilegt að úrvinnsla Icesave sé ekki á sömu hendi og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ljósi forsögu málsins er mikilvægt að aðkoma að málinu byggi á raunverulegu samráði allra flokka á Alþingi og að sem víðtækust sátt ríki um málsmeðferðina í samfélaginu."

Undir þetta rita: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Meirihluti nefndarmanna, fimm fulltrúar af níu, leggja því áherslu á að Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra fari áfram með fyrirsvar Icesavemálsins gagnvart ESA og EFTA dómstólnum.

Minnihluti nefndarinnar, fjórir fulltrúar, lögðu fram aðra bókun, eins og kom fram hér að ofan.

„Ríkisstjórn Íslands hlýtur að taka tillit til vilja meirihluta utanríkismálanefnar," segir í tilkynningu frá meirihlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×