Sport

Tebow tryggði Denver sigur á Jets

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tim Tebow í leiknum í nótt.
Tim Tebow í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Leikstjórnandinn Tim Tebow sá sjálfur um að tryggja Denver Broncos sigur á New York Jets með snertimarki á lokamínútu leiksins. Lokatölur voru 17-13.

Sigurmarkið kom eftir 20 jarda snertimark þar sem að Tebow sá sjálfur um að ryðjast yfir endalínuna. Kom það eftir 95 jarda sókn sem taldi samtals tólf leikkerfi.

„Mér finnst gaman að vinna leiki en þetta var aðeins of stressandi," sagði Tebow eftir leikinn. Denver hefur nú unnið fjóra af fimm leikjum sínum eftir að Tebow tók við sem leikstjórnandi í byrjunarliði. Alls hefur liðið unnið fimm af tíu leikjum sínum á tímabilinu.

Tebow náði að klára þrjár af fimm sendingum í lokasókninni en hann hljóp sjálfur 57 jarda með boltann.

Í síðasta leik kláraði hann aðeins tvær sendingar allan leikinn en Denver vann þá engu að síður sigur á Kansas.

New York er einnig með fimm sigurleiki á tímabilinu en með tapinu í nótt minnkuðu möguleikar liðsins á að komast í úrslitakeppnina talsvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×