Sport

Lochte er gullkálfurinn á HM í sundi

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ryan Lochte er maðurinn sem lætur verkin tala á heimsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í Sjanghæ í Kína. Í gær landaði Bandaríkjamaðurinn þriðju gullverðlaunum sínum á mótinu með því að vinna 200 metra baksundið. Lochte er sá eini sem hefur bætt heimsmet í 50 metra laug frá því að nýjar keppnisreglur um sundfatnað tóku gildi í byrjun ársins 2010. Hann bætti við fjórðu gullverðlaunum í gær með bandarísku boðssundssveitinni í 4x200 metra skriðsundi.

Lochte kom í mark á tímanum 1.52,96 mínútum en Ryosuke Irie frá Japan varð annar á 1.54,11 og Bandaríkjamaðurinn Tyler Clary varð þriðji á 1.54,69 mínútum.

Hinn 26 ára gamli Lochte sigraði í þessari grein á HM í Melbourne í Ástralíu árið 2007 en hann varð Ólympíumeistari í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Á síðasta heimsmeistaramóti varð hann að þriðji en þar sigraði Aaron Peirsol sem nú er hættur keppni í sundi.

Lochte er eins og áður segir búinn að vinna þrjár greinar á HM. Hann er einnig með gullverðlaun í 200 metra skriðsundi og 200 metra fjórsundi þar sem hann setti heimsmet. Í báðum sundunum hafði hann betur gegn Michael Phelps sem vann til átta gullverðlauna á ÓL í Peking.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.