Sport

Ótrúleg mistök á lokahring Indy-500 kappakstursins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bandaríkjamaðurinn J.R. Hildebrand fór illa að ráði sínu í Indianapolis-500 kappakstrinum sem fram fór í gær. Hinn 23 ára nýliði hafði gott forskot á keppinauta sína á lokahringnum þegar hann missti stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að hann keyrði á vegg.

Hildebrand náði eftir sem áður að stýra stórskemmdum bíl sínum í mark en Bretanum Dan Weldon tókst að skjótast fram fyrir Kanann unga og tryggja sér sigur.

Þetta er í annað skiptið á ferlinum sem Weldon sigrar í kappakstrinum en hann hafði lent í öðru sæti undanfarin tvö ár. Flest benti til þess að það yrði hlutskipti hans þriðja árið í röð þar til Hildebrand fataðist flugið á tvö hundraðasta hringnum.

Indy-500 Kappaksturinn fer fram í samnefndri borg í Indíana-fylki í Bandaríkjunum en 500 er vísun í vegalengdina sem ekin er, 500 mílur. Hann telst til einna þriggja stærstu viðburða í akstursíþróttum ásamt Formúlu 1 keppninni í Mónakó og hinum sögufræga Le Mans kappakstri.

Myndband af lokasprettinum má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×