Fótbolti

Wilshere vill spila með U-21 liði Englands í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jack Wilshere, til hægri, í leik með enska A-landsliðinu gegn Wales um helgina.
Jack Wilshere, til hægri, í leik með enska A-landsliðinu gegn Wales um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Skiptar skoðanir eru um þátttöku þeirra Jack Wilshere og Andy Carroll með U-21 landsliði Englands á EM í Danmörku í sumar. Enskir fjölmiðlar fjalla mikið um málið í dag en sjálfur segist Wilshere vilja spila á mótinu.

The Sun tekur málið upp á baksíðu í dag og segir að Stuart Pearce, þjálfari U21-landsliðs Englands, vilji stilla upp sínu sterkasta liði í Danmörku í sumar. Samkvæmt blaðinu nýtur hann stuðnings Fabio Capello, þjálfara A-landsliðs Englands.

Ísland keppir sem kunnugt er á sama móti en er þó ekki í sama riðli og England.

Þeir Kenny Dalglish, þjálfari Carroll hjá Liverpool, og Arsene Wenger, þjálfari Wilshere hjá Arsenal, eru sagðir ekki spenntir fyrir því að láta sína leikmenn taka þátt í mótinu. Bent er á það í The Guardian í dag að ef Wilshere spilar alla leiki Arsenal til loka tímabilsins auk A-landsleiks Englands gegn Sviss í byrjun júní verður hann búinn að spila 53 leiki á tímabilinu.

EM U-21 liða í Danmörku hefst þann 11. júní og stendur yfir í tvær vikur.

Blaðamennirnir Richard Williams hjá The Guardian og Martin Samuel hjá Daily Mail styðja hugmyndir Pearce um að stilla upp sterkasta mögulega liðinu á þessu móti. Englendingar, rétt eins og Spánverjar og Þjóðverjar hafa gert í mörg ár, eiga að reyna að vinna mótið og koma á sigurhefð hjá þessum leikmönnum en enska landsliðið hefur ekki fagnað sigri á stórmóti í knattspyrnu síðan 1966.

„Þetta er alþjóðlegur fótbolti og ég vil taka þátt í öllum landsleikjum sem ég á möguleika á að spila," sagði Wilshere í samtali við enska fjölmiðla í dag. „En þetta er undir þeim Stuart Pearce og Fabio Capello komið. Þeir munu ræða saman og ákveða hvað er best fyrir mig."

„Ég ræði reglulega við Wenger og mun gera það aftur. Ég er viss um að Stuart Pearce og Fabio Capello munu einnig ræða við hann."

Sjálfur segir Capello að þetta mál sé undir þeim Pearce og Wenger komið. „Ég hef heyrt að leikmaður Barcelona vilji spila á þessu móti en þetta verða þeir Stuart Pearce og Arsene Wenger að ákveða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×