Fótbolti

Mourinho tók næstum við enska landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segir að hann hafi aðeins verið nokkrum klukkustundum frá því að gerast landsliðsþjálfari Englands árið 2007.

Enska knattspyrnusambandið var þá að leita að nýjum þjálfara til að taka við af Steve McClaren sem hafði mistekist að koma Englandi í úrslitakeppni EM 2008.

Á endanum var Fabio Capello ráðinn en hann er landsliðsþjálfari enn í dag.

Mourinho var þá nýhættur hjá Chelsea þegar að þetta mál kom upp. „Ég var næstum búinn að semja við enska knattspyrnusambandið,“ sagði Mourinho við franska dagblaðið l'Equipe.

„En á síðustu stundu hugsaði ég með mér að þetta væri ekki fyrir mig. Sem landsliðsþjálfari fæ ég bara einn leik á mánuði en þess á milli sit ég upp á skrifstofu eða fylgist með leikjum.“

„Ég hefði svo þurft að bíða fram á sumar þar til að annað hvort EM eða HM byrjar. Nei, þetta var ekki fyrir mig.“

„Ég hætti því við á síðustu stundu og ákvað frekar að bíða eftir rétta félagsliðinu - áskorun sem myndi hvetja mig áfram. Það reyndist vera Inter.“

Mourinho var hjá Inter á Ítalíu í tvö ár og gerði liðið að þreföldum meisturum á síðasta keppnistímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×