Fótbolti

Pearce: Ísland á marga frábæra leikmenn - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stuart Pearce á von á erfiðum leik gegn íslenska U-21 landsliðinu sem mætir enskum jafnöldrum sínum í vináttulandsleik í Englandi í kvöld.

Pearce er þjálfari U-21 landsliðs Englands sem vann sannfærandi 4-0 sigur á Dönum í vináttuleik á föstudagskvöldið. Ísland tapaði á sama tíma fyrir Úkraínu, 3-2.

England og Ísland eru bæði að undirbúa sig fyrir EM U-21 liða í Danmörku í sumar, rétt eins og Úkraína og Danmörk sem mætast einmitt í vináttulandsleik í dag.

„Ísland á marga frábæra unga leikmenn og ekki bara leikmenn sem eru aðeins gjaldgengir í U-21 liðið heldur einnig marga yngri líka," sagði Pearce en viðtalið við hann í heild sinni má sjá hér.

„Það er frábær árangur fyrir svo litla þjóð að hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni, sérstaklega þegar maður hugsar til þess að Ísland var í riðli með bæði Tékklandi og Þýskalandi."

„Á pappírnum taldi maður Ísland eiga enga möguleika á að komast áfram upp úr þessum riðli en ég tel að Ísland sé að komast á mikið skrið í þessum aldursflokki."

„Þetta verður erfiður andstæðingur en liðið er að undirbúa sig fyrir mótið í sumar, rétt eins og við."

Leikurinn fer fram á Deepdale-vellinum, heimavelli Preston North End, og ræðir Pearce einnig lítillega um það og þegar hann var næstum því sjálfur genginn til liðs við félagið á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×