Innlent

Tchenguiz-bræður og Sigurður Einarsson handteknir í Lundúnum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Robert Tchenguiz var stærsti einstaki lántakandi Kaupþings banka en útlán til hans og félaga í hans eigu námu á einum tímapunkti 25 prósent af eiginfjárgrunni bankans.
Robert Tchenguiz var stærsti einstaki lántakandi Kaupþings banka en útlán til hans og félaga í hans eigu námu á einum tímapunkti 25 prósent af eiginfjárgrunni bankans.

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings og Robert Tchenguiz, sem var stærsti viðskiptavinur bankans, voru handteknir í Lundúnum í morgun í sameiginlegri aðgerð Serious Fraud Office í Bretlandi og embætti sérstaks saksóknara á Íslandi.

Húsleit var gerð á skrifstofum tveggja fyrirtækja í Lundúnum í morgun og á heimilum átta einstaklinga, en sjö voru handteknir í aðgerðinni sem SFO réðst í með fulltingi lögreglunnar í Lundúnum og Essex. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru Robert Tchenguiz, bróðir hans Vincent, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer&Friedlander, og Sigurður Einarsson meðal hinna handteknu en þeir voru handteknir klukkan hálfsex í morgun. Var húsleit m.a gerð á skrifstofu Rotch Property, sem er fasteignafélag í eigu Vincent Tchenguiz. Húsleitirnar og handtökurnar tengjast falli Kaupþings banka, samkvæmt upplýsingum frá Serious Fraud Office. Hundrað þrjátíu og fimm lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum.

Í Reykjavík var gerð húsleit á heimilum tveggja einstaklinga og tveir voru handteknir. Nöfn hinna handteknu á Íslandi hafa ekki fengist upp gefin, en þeir eru sagðir 42 og 43 ára. Ráðist var í þessar húsleitir og handtökur að beiðni Serious Fraud Office en lögreglumenn og rannsakendur frá embætti sérstaks saksóknara sáu um aðgerðirnar ásamt fulltrúum SFO. Nánar verður fjallað um málið hér á Vísi í dag og í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Tengist rannsókn SFO

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að handtökurnar sem gerðar voru í Bretlandi í morgun og í Reykjavík tengist rannsókn sem efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar hefur verið með í gangi síðan 2009.

Nærmynd: Glaumgosinn Robert Tchenguiz

Bresk-íranski kaupsýslumaðurinn Robert Tchenguiz, sem handtekinn var í Lundúnum í morgun í tengslum við rannsókn Serious Fraud Office á Kaupþingi, sat í stjórn Exista og var stærsti einstaki lántakandi Kaupþings banka fyrir hrunið.

Ármann Þorvaldsson líka handtekinn

Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóri Singer&Friedlander, er einn þeirra manna sem handtekinn var í Bretlandi í morgun, samkvæmt heimildum fréttastofu. Eins og fram hefur komið tengjast aðgerðir efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, rannsókn sem hefur verið í gangi síðan í desember 2009.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×