Fótbolti

Heimsmeistararnir sendir heim - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Vittek skoraði tvívegis fyrir Slóvakíu í dag.
Robert Vittek skoraði tvívegis fyrir Slóvakíu í dag. Nordic Photos / Getty Images

Paragvæ og Slóvakía tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum á HM í Suður-Afríku. Það þýðir að heimsmeistararnir sjálfir, Ítalía, eru úr leik ásamt Ný-Sjálendingum.

Slóvakar gerðu sér lítið fyrir og unnu ótrúlegan 3-2 sigur á Ítölum en fyrir leiki dagsins var Slóvakía í neðsta sæti F-riðils með aðeins eitt stig. Þeim dugði þó fjögur stig til að komast upp í annað sæti riðilsins þar sem að Paragvæ og Nýja-Sjáland gerðu markalaust jafntefli á sama tíma.

Paragvæ varð í efsta sæti riðilsins með fimm stig en Ítalía í því neðsta með tvö. Nýja-Sjáland tapaði ekki leik á HM - gerði þrjú jafntefli sem dugði þó ekki til að lokum.

Ítölum hefðu hins vegar dugað jafntefli í dag en útlitið var ekki bjart lengst af. Robert Vittek kom Slóvakíu yfir í fyrri hálfleik eftir að Daniele De Rossi gerði slæm mistök í ítölsku vörninni.

Staðan í leiknum var lengi vel 1-0 og virtist ekkert ganga upp hjá meisturunum sem lentu undir í öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni. Fabio Quagliarella átti skot að marki sem Martin Skrtel varði á marklínu og útlitið dökknaði enn þegar að Vittek slapp fram hjá fyrirliðanum Fabio Cannovaro og kom Slóvökum í 2-0 forystu á 73. mínútu.

Ítalirnir gáfust þó ekki upp og síðustu tíu mínútur leiksins voru ótrúlegar. Antonio Di Natale minnkaði muninn fyrir Ítali af stuttu færi eftir að markvörður Slóvakíu hafði varið skot frá Vincenzo Iaquinta.

Aðeins fjórum mínútum síðar kom Quagliarella boltanum í mark Slóvaka af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá vinstri. En Quagliarella var dæmdur rangstæður og markið því ekki gilt.

En öll nótt virtist endanlega úti þegar að varamaðurinn Kamul Kopunek skoraði þriðja mark Slóvakíu með sinni fyrstu snertingu í leiknum. Fyrstu tvö mörkin báru vott um slæman varnarleik ítalska liðsins en þriðja markið enn frekar. Slóvakar tóku einfaldlega innkast inn fyrir vörn Ítalíu þar sem Kopunek skaust inn á milli varnarmanna Ítalíu og vippaði boltanum yfir Marchetti í markinu.

Þetta reyndist þó ekki síðasta mark leiksins. Quagliarella átti frábært skot rétt utan vítateigs sem hafnaði í markinu og skyndilega voru heimsmeistararnir aftur komnir í séns.

Á fimmtu mínútu uppbótartímans barst boltinn til Simone Pepe á fjarstönginni eftir fyrirgjöf og máttu litlu muna að hann næði að koma boltanum að marki. En það tókst ekki og leikurinn var því næst flautaður af, við gríðarlegan fögnuð Slóvaka.

Ný-Sjálendingar féllu úr leik í dag með sæmd og taplausir þar að auki. 1-0 sigur á Paragvæ í dag hefði þó dugað þeim til að vinna riðilinn. Leikur liðanna í dag var heldur bragðdaufur og litu fá marktækifæri dagsins ljós.

Samantektir úr leikjunum má sjá með því að smella á Brot af því besta á HM-vef Vísis, undir flipanum VefTV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×