Fótbolti

Mourinho kemur Ronaldo til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur komið Cristiano Ronaldo til varnar vegna þeirrar gagnrýni sem hefur beinst að honum í tengslum við HM í Suður-Afríku.

Portúgal tapaði fyrir Spáni, 1-0, í 16-liða úrslitum keppninnar og skoraði í aðeins einum leik í allri keppninni - gegn Norður Kóreu.

Ronaldo hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á mótinu en Mourinho segir að væntingar til hans hafi verið of miklar.

„Ég mun ekki láta alla ábyrgð liðsins falla einungis á herðar Ronaldo," sagði Mourinho í samtali við spænska fjölmiðla. „Í mínum liðum þá vinna allir þegar við vinnum. Þegar við töpum, þá tapa ég. Ronaldo getur því slakað á í fríinu sínu."

Eftir leikinn gegn Spáni var Ronaldo spurður hvað hafi farið úrskeðis hjá Portúgal á HM. „Hvað fór úrskeðis? Talið við Carlos Queiroz," svaraði þá Ronaldo en Queiroz er landsliðsþjálfari Portúgals.

Síðan þá hefur Ronaldo neitað því að um gagnrýni á Queiroz hafi verið um að ræða. Luis Figo, fyrrum landsliðsfyrirliði Portúgal, gagnrýnir núverandi fyrirliða fyrir að sýna svona hegðun.

„Fyrirliðinn verður að verja allan hópinn - sama hvað. Þegar illa gengur verður hann að fara fyrir hópnum," sagði Figo.

Sjálfur hefur Queiroz gefið sterklega í skyn að hann sé ekki hræddur við að kippa Ronaldo úr liði Portúgals.

„Ef einhverjum finnst landsliðstreyjan of lítil á sig þá er engin þörf á viðkomandi," sagði Queiroz. „Ég þarf ekki á því að halda að við höldum mikinn vinskap. Ég fer einungis fram á það að hann sýni mér virðingu. Það er enginn yfir landsliðið hafinn á meðan ég er þjálfarinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×