Fótbolti

Ítalir ekki fengið jafn mörg mörk á sig í einum HM-leik í 40 ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Federico Marchetti stóð í marki Ítala í dag í fjarveru Gianluigi Buffon sem er meiddur.
Federico Marchetti stóð í marki Ítala í dag í fjarveru Gianluigi Buffon sem er meiddur. Nordic Photos / Getty Images

Slóvakía varð fyrsta liðið í fjóra áratugi til að skora minnst þrjú mörk gegn Ítalíu í úrslitakeppni heimsmeistaramóts.

Síðast gerðist það árið 1970 þegar að Brasilía vann Ítali, 4-1. Síðan þá hafa Ítalir tvívegis orðið heimsmeistarar, 1982 og 2006.

Þetta er nú í fjórða sinn sem ríkjandi heimsmeistarar komast ekki upp úr riðlakeppninni. Ítalir urðu fyrstir til árið 1950, það gerðist svo hjá Brasilíu árið 1966 og Frakklandi fyrir átta árum.

Slóvakinn Robert Vittek skoraði tvívegis gegn Ítölum í dag og varð þar með fimmta manninum til að takast það. Síðast tókst Marcelo Salas það á HM 1998. Vittek hefur nú skorað 21 mark á landsliðsferlinum og vantar aðeins eitt mark til viðbótar til að bæta markamet Szilard Nemeth.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×