Lífið

OK Computer valin besta platan

OK Computer með Radiohead er besta plata síðustu 25 ára samkvæmt lesendum tónlistartímaritsins Q.

OK Computer með bresku hljómsveitinni Radiohead hefur verið kjörin besta plata síðustu 25 ára af lesendum breska tímaritsins Q. Lög á borð við Karma Police og Paranoid Android er að finna á þessari mögnuðu plötu frá árinu 1997, sem hefur í gegnum tíðina komist ofarlega á hina ýmsu vinsældalista.

Þrjár hljómsveitir eiga tvær plötur á listanum, en það eru Radiohead, Oasis og U2.

Í öðru sæti lenti Nevermind með Nirvana og í því þriðja og fjórða voru plötur Oasis, (What"s the Story) Morning Glory? og Definitely Maybe. Vinsældir Oasis í Bretlandi koma engum á óvart en þessar tvær plötur hafa löngum verið taldar þær bestu úr herbúðum sveitarinnar.

Frumburður Arctic Monkeys, Whatever People Say I Am, That"s What I"m Not, lenti í fimmta sæti og The Joshua Tree með írsku rokkurunum U2 í því sjötta. The Stone Roses á plötuna í sjöunda sæti, sem er samnefnd sveitinni, og The Bends með Radiohead náði áttunda sætinu. U2 og Muse eiga síðan tvær síðustu plöturnar á listanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×