Lífið

Jamie Oliver hjólar í Ramsay

Jamie Oliver og Gordon Ramsay eru ekki vinir ef marka má skammir Olivers yfir Indlandsferð Ramsays í breska blaðinu Daily Mail.
Jamie Oliver og Gordon Ramsay eru ekki vinir ef marka má skammir Olivers yfir Indlandsferð Ramsays í breska blaðinu Daily Mail.
Jamie Oliver húðskammar Gordon Ramsay í viðtali við breska blaðið Daily Mail. Ramsay fór nýlega til Indlands og kynnti sér matargerð þar ásamt tökuliði Channel 4 og var afraksturinn sýndur í sjónvarpsþáttaröð Ramsay, Gordon's Great Escape. Oliver var ekki sáttur við framgöngu Ramsay sem er þekktur fyrir blótsyrði og ögrandi framkomu og þótti Gordon hafa sýnt indverskri matargerð vanvirðingu í þáttunum. Ramsay líkti á einum stað indverskum gúrú við jólasvein og blótaði öllu í sand og ösku.

Oliver viðurkennir að hann hafi langað að fara til Indlands og gera matreiðsluþátt. „En nú, þegar Gordon Ramsay er búinn að gera það, verð ég að bíða í þrjú ár," segir Oliver og bætir því við að fara á framandi slóðir og kynnast nýrri matarmenningu sé eitt það skemmtilegasta í starfinu. „Ég hefði verið sáttur við Indlandsferð Ramsay ef hann hefði gert þetta sómasamlega. En hann gerði það ekki, hann sýndi viðfangsefninu vanvirðingu. Þegar þú heimsækir aðra menningu lokar þú munninum, hlustar og brosir. Og svo ferðu heim og nýtir þér reynsluna," segir Oliver. „Þú stendur ekki bara og öskrar á fólk eða dæmir það, þú hefur engan rétt á því. Þú átt að vera auðmjúkur."

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kastast í kekki milli þeirra Olivers og Ramsays en þeir verða að teljast frægustu sjónvarpskokkar heims. Fyrr á þessu ári sagði Oliver að Tana, eiginkona Ramsay, væri betri kokkur en karlinn. Ramsay svaraði fyrir sig, sagðist vera matreiðslumeistari á meðan Oliver væri bara kokkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.