Fótbolti

James vill taka víti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
vísir/getty

Það vantar ekki sjálfstraustið í landsliðsmarkvörð Englendinga, David James, en hann segist vera miklu meira en til í að taka víti fari svo að leikur Englands og Þýskalands endi í vítaspyrnukeppni.

"Að sjálfsögðu myndi ég taka víti ef ég væri beðinn um það. Það eru ekki allir sem vilja taka víti en ég er til í slaginn. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en staðreyndin er sú að það hafa ekki allir taugar í það. Kannski tek ég síðasta vítið," sagði James kokhraustur.

England þekkir það vel að láta markvörð skjóta sig úr keppni en portúgalski markvörðurinn Ricardo skoraði sigurmarkið í vítaspyrnukeppni gegn Englandi á EM 2004.

James er ekki bara til í að taka víti heldur er hann einnig bjartsýnn á að England leggi Þýskaland á morgun.

"Við erum með sterkt lið og óttumst engan. Við erum með sjálfstraustið í lagi og trúum þvi að við munum gleðja þjóðina með því að leggja Þýskaland."

Capello hefur þegar gefið upp hverjir munu taka víti fyrir England. Það eru Frank Lampard, Steven Gerrard, James Milner, Gareth Barry og Wayne Rooney. Hver veit nema James taki sjöttu spyrnuna ef á þarf að halda?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×