Lífið

Northern Wave: Stærri og betri hátíð

Dögg Mósesdóttir, framkvæmdastjóri stuttmyndahátíðarinnar Northern Wave, segir aðsókn á hátíðina hafa aukist mikið ár frá ári. Nýjum dagskrárliðum, til dæmis fiskisúpukeppni, hefur verið bætt við hátíðina.
Dögg Mósesdóttir, framkvæmdastjóri stuttmyndahátíðarinnar Northern Wave, segir aðsókn á hátíðina hafa aukist mikið ár frá ári. Nýjum dagskrárliðum, til dæmis fiskisúpukeppni, hefur verið bætt við hátíðina.
Stuttmyndahátíðin Northern Wave Film Festival verður haldin á Grundarfirði í fjórða sinn dagana 4. til 6. mars.

Líkt og fyrri ár verður hátíðinni skipt í tvo keppnisflokka, flokk stuttmynda og flokk tónlistarmyndbanda, en þetta er eina kvikmyndahátíðin hér á landi sem hefur hleypt tónlistarmyndböndum að. Dögg Mósesdóttir, framkvæmdastjóri Northern Wave, segir aðsókn á hátíðina hafa aukist mikið ár frá ári og því má búast við met­aðsókn í mars.

„Undanfarin ár höfum við verið að bæta við nýjum dagskrár­liðum og gert hátíðina veglegri. Fiskisúpuveislan verður haldin í annað sinn núna í mars. Í fyrra kepptu heimamenn sín á milli en núna geta utanbæjarmenn einnig tekið þátt ásamt Grundfirðingum. Á sama tíma og stað verður haldinn handverksmarkaður þar sem listamenn og handverksfólk getur komið og selt vörur sínar,“ segir Dögg sem vinnur einnig að því að fá þekkta einstaklinga úr jaðar­kvikmyndagerð til að halda fyrir­lestra á hátíðinni.

„Svo verða auðvitað fastir liðir eins og tónlistarviðburðir og partí á sínum stað eins og venjulega,“ segir hún glaðlega.

Tekið verður á móti myndum og tónlistarmyndböndum til 1. janúar næstkomandi og geta áhugasamir sótt um á vefsíðunni northernwavefestival.com en þar má einnig finna allar nánari upplýsingar um hátíðina og umsóknar­ferlið.

- sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.