Lífið

Biðin loks á enda

Fatahönnuðurinn Ýr Þrastardóttir hefur sent frá sér sína fyrstu fatalínu, en hún vakti mikla athygli fyrir útskriftarlínu sína í vor. Fréttablaðið/Valli
Fatahönnuðurinn Ýr Þrastardóttir hefur sent frá sér sína fyrstu fatalínu, en hún vakti mikla athygli fyrir útskriftarlínu sína í vor. Fréttablaðið/Valli
Ýr Þrastardóttir útskrifaðist úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands síðasta vor. Hún vakti mikla athygli fyrir útskriftarlínu sína, sem þótti sérstaklega falleg og klæðileg. Hún er nú farin að hanna undir nafninu Ýr og kemur fyrsta fatalína hennar út í dag.

Nýja línan er unnin út frá útskriftarlínunni en Ýr bætti nýjum flíkum við línuna, sem inniheldur meðal annars buxur, boli, jakka og samfellur.

„Ég fékk margar fyrirspurnir um útskriftarlínuna og áttaði mig á því að ég gæti aldrei staðið undir öllum þessum pöntunum sjálf, þess vegna ákvað ég að láta framleiða hana fyrir mig,“ útskýrir Ýr. Flíkurnar eru framleiddar á Indlandi og heimsótti Ýr landið í sumar til að fylgja framleiðslunni eftir.

„Ég hafði samband við aðra íslenska hönnuði sem hafa látið framleiða fyrir sig þarna úti og þeir komu mér í samband við réttu aðilana. Ég fór svo út í sumar til að fylgja framleiðsluferlinu eftir og sjá til þess að engin vandamál kæmu upp,“ segir hún.

Aðspurð segist Ýr mjög spennt fyrir nýju línunni enda hafi hún beðið lengi eftir að fá hana í hús. „Ég er mjög spennt enda búin að bíða eftir þessu frá því í sumar. Ég er búin að fá hluta af línunni og afgangurinn kemur strax í næstu viku. Vörurnar eru fáanlegar í versluninni Kiosk frá og með deginum í dag en svo ætla ég að reyna að koma þeim að í fleiri verslunum innan skamms,“ segir Ýr, sem er þegar farin að hanna næstu línu.

Nýju línunni verður fagnað í versluninni Kiosk klukkan 20.00 í kvöld. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér Ýr Collection er beint á að heimasíðan www.yr-collection.com verður opnuð innan tíðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.