Lífið

Óráð, ónáttúra og einúlfar

Gullfiskar spila stórt hlutverk í sýningu Ólafar. Fréttablaðið/GVA
Gullfiskar spila stórt hlutverk í sýningu Ólafar. Fréttablaðið/GVA

Galleríið Kaolin er nýtt gallerí sem opnað verður í Ingólfsstræti 8 í kvöld með tveimur nýjum sýningum. Þórður Grímsson skoðar drauma og draumfarir og Ólöf Björg Björnsdóttir veltir fyrir sér ferðalagi sjálfsnándarinnar.

„Ég var búin að búa til verk í huganum fyrir rýmið sem nú er Kaolin, fyrir mörgum árum þegar það hýsti Gallerí i8. Það verk var afskaplega litað af þeim tíma og allt öðruvísi en það sem ég endaði á að gera nú, en tilfinningin er sú sama nú og þá er ég gekk inn í rýmið," segir Ólöf Björg Björnsdóttir sem er annar þeirra listamanna sem opnar sýningu í Kaolin í kvöld. Ólöf skilgreinir sýningu sína sem innsetningu, en sýningin er sköpuð sérstaklega með sýningarrýmið í huga.

Ólöf segir að rétt eins og við litumst af umhverfi okkar, litast verkin hennar af sínu umhverfi.

„Það eru engir sólóistar og það á líka við um list og listamenn þó þeir nálgist hlutina oft frá öðum sjónarhornum en aðrir. Við erum í senn einangruð í okkur sjálfum en tengjumst samt sem áður öllu í veröldinni. Þetta er það sem ég er að vinna með og nota til að hleypa upp verkum mínum. Við erum oft svo lituð af öllum þeim óskráðu reglum sem samfélagið og við sjálf setjum okkur, reglum sem verða að stjórnarskrá sem blindar sýn okkar á möguleika vaxtarsprota okkar og þar með vaxtar veraldarinnar sem við lifum í."

Draumar og draumfarir
Þórður Grímsson Óráð er önnur einkasýning Þórðar en fyrsta sýningin þar sem hann fæst við blekteikningar og prent. fréttablaðið/GVA

„Óráð" er fyrsta sýning Þórðar Grímssonar á blekteikningum og prentum, en hann hefur áður fengist við vídeólist og gerð tónlistarmyndbanda fyrir hljómsveitir eins og The Brian Jonestown Massacre, Singapore Sling, The Virgin Tongues og The Go-Go Darkness.

Í verkum sínum fæst Þórður gjarnan við drauma og draum­farir og mörk þess raunverulega og óraunverulega. „Þessi sýning er framhald af því sem ég hef verið að gera, bara í öðrum miðli," segir Þórður.

„Minningar, tákn, svipbrigði, tími, tilfinningar, náttúra, ónáttura og það sem Freud kallaði „Das Unheimliche" eru viðfangsefni mín, en verk Edgars Allans Poe hafa haft mikil áhrif á mig, sem og myndlist Alfreðs Flóka og rit Thomasar De Quincey."

Ástæður þess að Þórður flutti sig yfir í prentið er tvíþætt. „Ég hef verið í grafíkvinnslu undan­farið og hannaði meðal annars útlit nýju plötunnar með Third Sound sem var að koma út. Svo áskotnuðust mér fallegar arkir sem eru 60-70 ára, vel lifaðar, á góðum prís. Þetta tvennt tengdist svo symbol­ismanum sem ég hef verið að vinna með, en hann er sóttur að stórum hluta til fornrar táknfræði dauðabóka Egypta og Tíbeta, draumfara Carlos Castenada og galdraskræðu Skugga, og niðurstaðan varð þessi sýning."

Opnun Nándarnálgunar einúlfa fer fram milli 18 og 20 í kvöld en Þórður opnar Óráð klukkan 20.

tryggvi@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.