Fótbolti

Tógó dregur lið sitt úr Afríkukeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor eftir skotárásina í gær.
Emmanuel Adebayor eftir skotárásina í gær. Nordic Photos / AFP

Knattspyrnuyfirvöld í Tógó hafa ákveðið að draga lið sitt úr keppni á Afríkumóti landsliða sem hefst í Angóla á morgun en þær fregnir eru enn óstaðfestar.

Samkvæmt fjölmiðlum í Tógó mun liðið hafa snúið aftur til höfuðborgarinnar Lome og mun því ekki spila í Angóla.

Ráðist var á liðsrútu landsliðsins í Angóla í gær og særðust tveir leikmenn í skotárásinni. Skipuleggjendur mótsins segja að mótið muni fara fram eins og áætlað var en landsliðsmenn Tógó funduðu í gær.

„Ef okkur finnst að öryggi okkar sé ekki tryggt þá munum við fara," sagði landsliðsfyrirliðinn Emmanuel Adebayor, leikmaður Manchester City í Englandi.

„Þetta er knattspyrnuleikur og eitt stærsta mótið í Afríku. Það eru margir sem myndu vilja vera í okkar stöðu en ég tel ólíklegt að einhver væri til í að gefa líf sitt til þess," sagði Adebayor við BBC í Afríku enn fremur.

Einn lét lífið í skotárásinni í gær - rútubílstjórinn. Alls særðust níu menn, þeirra á meðal tveir leikmenn, aðstoðarlandsliðsþjálfarinn, sjúkraþjálfari, markvarðaþjálfari og annar þjálfari.

Varnarmaðurinn Serge Akakpo særðist illa eftir að hann varð fyrir tveimur skotum og missti mikið blóð. Hann leikur með Vaslui í Rúmeníu. Akakpo gekkst undir aðgerð og er ekki lengur sagður í lífshættu.

Þá særðist einnig markvörðurinn Kodjovi Obilale en hann leikur með franska félaginu GSI Pontivy.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×