Handbolti

Gísli giftur, Ómar í rann­sóknar­vinnu og Snorri fagnar ástinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ómar og Snorri sjá lítinn mun á giftum Gísla enn um sinn. Sá síðastnefndi átti fallegan dag er hann gekk í það heilaga á gamlársdag og liðsfélagarnir fagna ástinni.
Ómar og Snorri sjá lítinn mun á giftum Gísla enn um sinn. Sá síðastnefndi átti fallegan dag er hann gekk í það heilaga á gamlársdag og liðsfélagarnir fagna ástinni. Samsett/Vísir/Ívar/Instagram

Glatt var á hjalla og hamingjuóskum rigndi yfir Gísla Þorgeir Kristjánsson er karlalandsliðið í handbolta kom saman til æfinga í gær fyrir komandi Evrópumót.

Það er ávallt mikil stemning og spenna þegar landsliðið kemur saman í upphafi nýs árs eftir langa og stranga haustmánuði. Gleðin var mikil þegar drengirnir komu saman í Safamýri í gær og manna glaðastur var Gísli Þorgeir Kristjánsson.

Það var ekki að ástæðulausu, enda gekk Gísli í það heilaga á gamlársdag er hann kvæntist Rannveigu Bjarnadóttur. En hvernig er að vera giftur maður?

„Allt annað líf. Þetta er bara geðveikt,“ segir Gísli léttur.

„Við vorum búin að hugsa þetta en vildum halda því bara fyrir okkur. Við vorum ekkert að láta mikið vita enda var þetta bara nánasta fjölskylda. Þetta var hrikalega fallegur dagur og mikil stemning allan daginn,“

Strákarnir í landsliðinu fengu því ekki að fagna með Gísla eftir litla athöfn en það rigndi yfir hann kveðjum þegar hann mætti á æfingu í gær.

„Bara geðveikt. Allir voða glaðir og búnir að óska manni til hamingju. Þetta byrjar vel,“ segir Gísli.

Ómar og Snorri sjá lítinn mun, enn um sinn

Ómar Ingi Magnússon er liðsfélagi Gísla hjá Magdeburg í Þýskalandi til margra ára og er í landsliðshópnum fyrir komandi mót eftir að hafa misst af HM í fyrra vegna meiðsla. Aðspurður hvort hann sjái mikinn mun á giftum Gísla segir hann:

Ómar Ingi ætlar að rýna í það hvort hjónabandið hafi áhrif á Gísla.Vísir/Ívar Fannar

„Ekki enn. Ég var bara að hitta. Við skulum sjá hvað kemur úr honum. Við skulum rannsaka það betur,“ segir Ómar og glottir við tönn.

Snorri Steinn samgleðst Gísla.Vísir/Ívar Fannar

„Ég hef ekki þjálfað hann eftir að hann var giftur. Við óskum honum bara til hamingju með það og gott að lífið leikur við hann,“ segir landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson og hlær.

„Ég fylgist svo sem lítið með því en það er gott að hann hafi fundið ástina. Mér finnst hann líta vel út á vellinum og það svona skiptir mig aðeins meira máli,“ bætir léttur Snorri Steinn við.

Fréttina má sjá í spilaranum.

Að neðan má sjá viðtal við Gísla í heild frá æfingu gærdagsins.

Klippa: Gísli ræðir ástina, brúðkaupið, undirbúning og EM



Fleiri fréttir

Sjá meira


×