Innlent

Stóra golfvallarmálið: Mikilvægt tómstundasvæði fyrir atvinnulausa

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

„Skammarlega lág fjárhagsaðstoð hefur í för með sér að fjöldi fólks leitar aðstoðar líknarfélaga," sagði Sóley Tómasdóttir, Vinstri-grænum, í umræðum um styrk til Golfklúbbs Reykjavíkur, til að stækka golfvöll félagsins.

230 milljóna króna framlag borgarinnar til klúbbins hefur nú verið rætt í Borgarstjórn ríflega klukkustund.

Kostar jafn mikið og niðurskurður hjá yngstu börnunum

Sóley sagði að margir samningar borgarinnar hefðu verið teknir til endurskoðunar.

„Í ár á að taka 50 milljónir króna af liðnum ófyrirséð. Á sama tíma á að spara 50 milljónir á kostnað yngstu barnanna. Á sama tíma er aukið vinnuálag á fólk sem er með 180 þúsund krónur á mánuði.

„Veit meirihlutinn ekki að efnahagskerfið hrundi. Veit meirihlutinn ekki að frjálshyggjan brást?" spurði Sóley.

Prinsippmál

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sjálfstæðisflokki, kom í pontu og sagði að stærri golfvöllur yrði mikilvægt tómstundasvæði fyrir atvinnulausa.

Óskar Bergsson, Framsóknarflokki, sagði að umræðan stæði um grundvallaratriði. Menn ættu að geta tekið mark á samningum sem borgin gerði.

„Vissulega fóru menn mikinn á árunum 2006 og 7, það má alveg viðurkenna það. En það verður að senda þau skilaboð að það sé að marka gjörninga sem gerðir eru, enda þótt þeir hafi verið gerðir af pólitískum andstæðingum okkar," sagði Óskar Bergsson, og vísaði til þess að samningur við Golfklúbbinn hefði verið gerður í borgarstjóratíð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.

Vill kartöflugarð

„Hér er samningur sem var gerður fyrir hrun og nú á að efna hann. Hvað með aðra saminga sem hafa verið gerðir. Hvar er forgangsröðunin?" sagði Hermann Valsson, vinstri-grænum, sem spurði jafnframt hvort kannað hefði verið hver þörfin væri fyrir fleiri golfvelli. Heppilegra væri að nota svæðið undir kartöflurækt í núverandi efnahagsástandi, heldur en golfvöll.

Gísli Marteinn Baldursson, Sjálfstæðisflokki, bætti því við í umræðunni, að mikil aðsókn væri í golf. „Vita menn ekki að golf er uppselt í borginni?"Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.