Lífið

Langþráð vítamínsprauta

Átta ár eru liðin síðan síðasta plata sveitarinnar kom út. Útgáfutónleikar verða á fimmtudagskvöld.
Átta ár eru liðin síðan síðasta plata sveitarinnar kom út. Útgáfutónleikar verða á fimmtudagskvöld.
Þögnin hefur verið rofin því fyrsta plata Apparat Organ Quartet í átta ár, Pólýfónía, er loksins að koma út. Útgáfutónleikar verða á Nasa á fimmtudagskvöld þar sem öllu verður tjaldað til.

Hljómsveitin Apparat Organ Quartet heldur útgáfutónleika á Nasa á fimmtudagskvöld í tilefni þess að önnur plata hennar, Pólýfónía, kemur í verslanir sama dag. Átta ár eru liðin frá útgáfu fyrstu plötu sveitarinnar en upptökur á nýju plötunni hófust fyrir þremur árum.

„Við erum rosamiklir dútlarar. Svo hafa menn verið uppteknir í mörgu öðru, hvort sem það er að gera aðra tónlist eða eignast börn,“ segir Úlfur Eldjárn um þessa löngu bið. „Við ætluðum að vera rosalega snöggir með þessa plötu og gera þetta dálítið „live“ en það klikkaði aldeilis.“ Aðrir meðlimir Apparats eru Jóhann Jóhannsson, Arnar Geir Ómarsson, Hörður Bragason og Sighvatur Ómar Kristinsson.

Pólýfónía, sem er gefin út af 12 Tónum, inniheldur níu lög sem fá innblástur úr ýmsum áttum, þar á meðal frá þýska vísindamanninum Alfreð Wegener. „Hann er maðurinn sem lagði fram grunninn að landrekskenningunni. Að heimurinn hefði verið meira og minna ein heimsálfa. Hann kallaði hana Pangaea, eða Landið eina. Við erum svolítið hrifnir af þeim kenningum öllum og okkar draumur er að reyna að sameina heiminn aftur í þessa Pangaea,“ segir Úlfur. Aðrir áhrifavaldar er guðfaðir gufutölvunnar, Charles Babbage, rokksveitirnar The Ramones og Motörhead, Karlheinz Stockhausen, Buxtehude og Pólýfónkórinn. Söngurinn á plötunni er að mestu í höndum talgervla en lögin eru sungin á ensku, íslensku, þýsku og japönsku.

Úlfur segir hljóminn á Pólýfóníu töluvert frábrugðinn fyrstu plötunni og þeir hafi reynt að fanga betur kraftinn sem einkennir Apparat á tónleikum. Til þess notuðu þeir fjölda hljóðfæra, aðallega gömul orgel og hljóðgervla frá níunda áratugnum. „Það eru mikil tímamót að hafa tekist að klára þessa plötu og þetta er vítamínsprauta fyrir tónleikaprógrammið okkar. Við erum mjög mikið tónleikaband í raun og veru þótt við komum ekki alltof oft fram,“ útskýrir hann. „Það var eiginlega allt „live“ spilað á plötunni og mjög lítið svindlað. Í stúdíóinu vorum við ekkert að forrita hlutina nema við notuðum nýja tækni við sönginn sem við höfum verið að tileinka okkur. Við förum kannski aðeins meira út í öfgar á þessari plötu. Þarna eru nokkur lög sem eru mjög mikið rokk og önnur sem eru meira popp en í raun og veru erum við ekkert að rembast við að fara í ákveðna stefnu.“

Útgáfutónleikar Apparats hefjast kl. 21 og kostar 1.500 kr. inn. Miðasala fer fram í 12 Tónum og á Nasa á fimmtudag. Sérstakir gestir eru Sykur, D.J. Flugvél og geimskip og japanski orgelsnillingurinn Junichi Matsumoto. Einnig hefur rykið verið dustað af sápukúluvél Apparats. „Það var fjárfest í sápukúluvél í góðærinu 2005. Hún hefur bara verið notuð einu sinni og er dregin fram við extra hátíðleg tækifæri,“ segir Úlfur.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.