Lífið

Elín sleikir sárin með samnemanda

Á meðan Tiger Woods reynir að koma ferli sínum aftur á flug er Elin Nordegren komin með nýjan kærasta upp á arminn.
Á meðan Tiger Woods reynir að koma ferli sínum aftur á flug er Elin Nordegren komin með nýjan kærasta upp á arminn.
Á meðan fyrrverandi eiginmaður hennar, Tiger Woods, rembist eins og rjúpan við staurinn við að ná tökum á sveiflunni og koma ferli sínum aftur í gang er Elin Nordegren nú sögð komin með nýjan kærasta. Sá er víst nemandi við háskóla í Flórída, eins og Elin, og er 35 ára maður frá Suður-Afríku. „Það hafa verið kossar og faðmlög en ég veit ekki hvort þetta hefur gengið eitthvað lengra,“ sagði heimildarmaður The Sun sem greindi fyrst frá málinu. Elin er ekki á flæðiskeri stödd eftir að gengið var formlega frá skilnaði hennar og Tigers því samkvæmt fréttum fékk hún hundrað milljónir dollara frá kylfingnum lausláta.

Elin hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla eftir fjölmiðlafárið og raunar hefur henni tekist merkilega vel upp að halda sig fjarri kastljósinu, hún talaði til að mynda aðeins einu sinni opinberlega eftir að tugir ástkvenna fyrrverandi eiginmanns hennar stigu fram. Og hún hefur aldrei tjáð sig um hvað gerðist þegar Tiger klessti á fyrir utan heimili þeirra í Flórída.

Tiger hefur sjálfur kúrt kvenmannslaus og það hefur gengið erfiðlega hjá honum að koma golfinu aftur í samt lag. Hann missti nýverið efsta sætið á styrkleikalista kylfinga yfir til Bretans Lee Westwood og tapaði í bráðabana á eigin boðsmóti sem haldið var fyrir stuttu eftir að hafa verið í forystu nánast allan tímann. Elinu gengur hins vegar vel í námi sínu en hún er að læra sálfræði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.