Fótbolti

Samningi Kezman við PSG sagt upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mateja Kezman í leik með PSG.
Mateja Kezman í leik með PSG. Nordic Photos / AFP

Lítið hefur gengið hjá serbneska framherjanum Mateja Kezman síðan hann var keyptur dýrum dómi til Chelsea árið 2004.

Kezman var síðast á mála hjá Paris St. Germain í Frakklandi þar sem honum tókst aðeins að skora fimm mörk í 25 leikjum með félaginu.

Í dag var svo tilkynnt að hann hefði komist að samkomulagi við félagið um að rifta samningnum. Kezman er því laus allra mála en óvíst er hversu mörg félög munu sýna kappanum áhuga.

Hann sló fyrst í gegn með FK Partizan í heimalandinu áður en hann fór til PSV í Hollandi þar sem hann skoraði 105 mörk í 122 leikjum.

Kezman var svo keyptur til Chelsea fyrir 5,3 milljónir punda en náði aldrei að festa sig í sessi og fór síðan til Atletico Madrid ári síðar.

Síðan þá hefur hann einnig spilað með Fenerbahce í Tyrklandi og Zenit frá St. Pétursborg í Rússlandi auk PSG. Undir það síðasta fékk hann lítið sem ekkert að spila í franska boltanum og hefur aðeins tvívegis komið við sögu í haust, í bæði skiptin sem varamaður.

Hann lék síðast með serbneska landsliðinu árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×