Lífið

Snjóþyngsli töfðu útgáfu

Fjórða plata Benna er komin út, töluvert á eftir áætlun.
Fjórða plata Benna er komin út, töluvert á eftir áætlun.
Fjórða plata Benna Hemm Hemm, Skot, er loksins komin út, rúmum mánuði á eftir áætlun. Ein af ástæðunum er hinn mikli snjóþungi sem hefur verið í Bretlandi upp á síðkastið en þar var gripurinn framleiddur.

„Ég er löngu hættur að hafa áhyggjur af þessu en það að hún sé komin út gleður mig mikið,“ segir Benni, sem hefur verið búsettur í Skotlandi undanfarin ár. Hljómsveitin Retro Stefson sér um undir­leik fyrir Benna á plötunni og var hann ánægður með framlag hennar. „Þau eru svo æðislegir krakkar. Þau tóku vel í mínar vinnuaðferðir en ég er dálítið harður hljómsveitar­stjóri. Þau eru svo hæfleikarík að þau rúlluðu þessu upp.“

Fyrsta plata Benna, sem hét einfaldlega Benni Hemm Hemm, kom út árið 2006. Síðan hafa þær Kajak (2007) og Murta St. Calunga (2008) fylgt í kjölfarið en fyrir utan þær stóru hafa komið út nokkrar smáskífur.

Benni segir nýju plötuna töluvert frábrugðna fyrri verkum sínum. Í þetta sinn skipti hann sér ekki eins mikið af tæknilegu vinnunni. „Ég ákvað að leyfa Bigga, upptökumanni í Sundlauginni, að sjá um þetta. Það var dálítið stórt skref fyrir mig að sleppa aðeins hendinni af þeim hluta. Það er líka allt annað fólk sem ég var að vinna með og lögin finnst mér dálítið mikið öðruvísi.“

Útgáfutónleikar vegna plötunnar verða haldnir á Bakkusi á laugardagskvöld en fyrr um daginn spilar Benni í Havaríi, kl. 16. Retro Stefson sér um undirleik fyrir Benna og Prinspóló og Bárujárn hita upp. Dj Öfull sér svo um tónlistina á Bakkusi fram undir morgun. Miðar fást í Havarí og kosta 1.000 kr. í forsölu. Miðaverð við hurð er 1.500 kr.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.