Lífið

Milljarðs dala konan

Þrátt fyrir fréttir um annað er ferill Jessicu Simpson í fínu formi. Þó ekki söngferillinn.
Þrátt fyrir fréttir um annað er ferill Jessicu Simpson í fínu formi. Þó ekki söngferillinn.
Jessica Simpson hefur ekki náð sér á strik í tónlistarbransanum undanfarin ár. Hún gerði misheppnaða tilraun til að gerast kántrísöngkona fyrir tveimur árum og fréttir af óánægðum tónleikagestum bárust eins og eldur í sinu um netheima. Tilraunin reyndist vera salt í sár Simpson, sem virtist ennþá vera að jafna sig á skilnaði sínum og söngvarans Nick Lachey árið 2005. Ástarmál hennar hafa verið mikið milli tannanna á fólki undanfarin misseri, rétt eins og þyngd hennar, en hún hefur bætt á sig nokkrum kílóum eftir að hafa verið í ótrúlegu formi í kvikmyndinni Dukes of Hazzard. Þeim sem töldu að hún hafi náð hápunkti ferils síns þá skjátlast.

Simpson virðist ekki ætla að rétta úr kútnum tónlistarlega í bráð, en hún sendi nýlega frá sér jólaplötu, sem verður seint talið suðupottur sköpunar og frumleika. En það er fatalína Simpson, The Jessica Simpson Collection, sem hefur selst fyrir meira en 750 milljónir dala á árinu. Samkvæmt tískuritinu WWD stefnir línan í að vera fyrsta frægðarfólksfatalínan (e. celebrity) sem selst fyrir milljarð dala - 115 milljarða íslenskra króna. Af þessum peningum fær Simpson 100 milljónir dala í sinn hlut á árinu. Ágætis árslaun það.

Vince Camuto, stofnandi og forstjóri Camuto Group, sem heldur utan um fatalínu Simpson, segir fólki líka vel við Jessicu Simpson og líta á hana sem tísku­fyrirmynd. „Hún er stelpan í næsta húsi og er með frábærar vörur í boði,“ segir hann. Simpson er ekki ein á markaðnum og er í samkeppni við dívur á borð við Jennifer Lopez, Madonnu, Victoriu Beckham og Gwen Stefani. Simpson er að skilja þær eftir í reyknum og von er á að milljarðs dala fatalína hennar stækki enn frekar á næsta ári.

atlifannar@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.