Fótbolti

Ganverjar í átta liða úrslit - myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Asamoah Gyan fagnar sigurmarki sínu í leiknum.
Asamoah Gyan fagnar sigurmarki sínu í leiknum.

Gana mun mæta Úrúgvæ í átta liða úrslitum HM í Suður-Afríku. Það varð ljóst í kvöld er Gana sló út lið Bandaríkjanna, 2-1, í framlengdum leik.

Ganverjar fengu óskabyrjun á leiknum því Kevin-Prince Boateng kom þeim yfir á 5. mínútu leiksins.

Afríkumönnunum gekk vel að verjast en þegar rúmur klukkutími var liðinn af leiknum braut Jonah Mensa á Clint Dempsey í teignum og vítaspyrna dæmd.

Hana tók Landon Donovan. Hann skoraði með því að skjóta boltanum í stöngina og inn. Ákaflega öruggt.

Mikið fjör var á lokamínútunum en ekki tókst liðunum að skora og því varð að framlengja.

Það voru rétt rúmar tvær mínútur liðnar af framlengingunni þegar Asamoah Gyan slapp í gegnum vörn Bandaríkjanna. Hann var með varnarmann í bakinu en hélt jafnvægi og kláraði færið af stakri snilld. Óskabyrjun hjá Gana.

Bandaríkjamenn sóttu allt hvað þeir gátu eftir markið. Flestar sóknarlotur þeirra voru hugmyndasnauðar og fyrirsjáanlegar. Varnarmenn Gana lentu því ekki í miklum vandræðum.

Ganverjar þraukuðu út framlenginguna og fögnuðu innilega fræknum sigri. Þeir halda þar með uppi heiðri Afríku í keppninni.

Hægt er að sjá mörkin og tilþrifin úr leiknum hér.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×