Enski boltinn

Wenger vill að stuðningsmenn sýni William Gallas virðingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Gallas og Arsene Wenger.
William Gallas og Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur biðlað til stuðningsmanna félagsins að sýna William Gallas þá virðingu sem hann á skilið þegar franski miðvörðurinn snýr aftur á Emirates-völlinn í dag með núverandi liði sínu, Tottenham.

Hinn 33 ára gamli Gallas fór frá Arsenal í sumar þegar samningur hans rann út og ákvað að semja við erkifjendurna í Norður-London. Liðin mætast í nágrannaslag klukkan 12.45 í dag.

„Gallas gaf alltaf hundrað prósent í leikina þegar hann spilaði með Arsenal og það á okkar fólk að bera virðningu fyrir," sagði Arsene Wenger.

„Ég sé ekki af hverju hann ætti að fá að heyra það. Hann mun samt þola slíkt þó að það verði erfitt fyrir hann," sagði Wenger.

Gallas kom til Arsenal frá Chelsea í ágúst 2006 og var ekki alltaf sá vinsælasti innan liðsins. Hann var fyrirliði liðsins um tíma en missti síðan fyrirliðabandið til Cesc Fabregas.

„Ég horfi aðallega á það hvað leikmaður vill mikið vinna og hvað hann leggur mikið á sig þegar hann spilar. Ég get því aldrei gagnrýnt Gallas því hann spilaði alltaf af hundrað prósent krafti," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×