Fótbolti

Beckham hefur góð áhrif á enska hópinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Beckham fagnar gegn Slóvenum.
Beckham fagnar gegn Slóvenum.

Enski vængmaðurinn James Milner er afar ánægður með innkomu David Beckham á HM en hann segir Beckham hafa afar góð áhrif á enska hópinn.

Beckham meiddist illa fyrir mótið og gat því ekki spilað. Fabio Capello landsliðsþjálfari bauð honum í kjölfarið ráðgjafastarf sem hann þáði. Beckham situr því í jakkafötunum á bekknum og reynir að smita leikmenn af jákvæðum anda þess á milli.

"Síðan ég kom í enska landsliðið þá hef ég verið mikið með Beckham og horft á hann æfa. Fyrir leiki kemur hann síðan og spjallar og gefur góð ráð. Það er frábært að hafa mann með hans gæði og reynslu í kringum liðið. Hann lyftir anda allra í hópnum og gefur mikið af góðum ráðum," sagði Milner.

"Ef David er stoltur af fyrirgjöfinni minni á Defoe gegn Slóvenum þá er ég himinlifandi. Það var gaman að leggja lóð sitt á vogarskálarnar og frábærlega klárað hjá Jermain. Við höfum unnið mikið í þessu og gaman að sjá það ganga upp í leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×