Lífið

Arney Ingibjörg sigraði Röddina

Arney Ingibjörg sigraði Röddina og mun syngja í bæði Kringlunni og Smáralind yfir hátíðarösina.
Arney Ingibjörg sigraði Röddina og mun syngja í bæði Kringlunni og Smáralind yfir hátíðarösina.

„Þetta kom rosalega á óvart og ég er eiginlega ennþá í sjokki," segir hin sextán ára gamla Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir. Hún sigraði í söngkeppninni Röddinni en þættir með keppninni hafa verið sýndir á Stöð 2 að undanförnu.

Hátt í níu hundruð keppendur á aldrinum 12 til 16 ára skráðu sig til leiks og því var leiðin að sigrinum bæði löng og ströng. Arney segir frábært fyrir sig að vinna jafn stóra keppni og Röddin sé. „Ég hélt pottþétt að ég myndi ekki vinna en mér leið æðislega þegar Sveppi tilkynnti hver væri sigurvegarinnar."

Arney segist hafa sungið lengi en hún steig fyrst á svið þegar hún var fimm ára gömul og söng á 17. júní skemmtun í Grindavík. Hún mundi þó ekki hvaða lag varð fyrir valinu þá en hún sigraði Röddina með Christinu Aguilera-slagaranum You Lost Me sem verður gefið út á safndiskinum Pottþétt 54.

Arney segist alltaf hafa dreymt um að vera söngkona og það eru annasamir dagar framundan hjá henni, hún söng í Kringlunni og Smáralindinni um helgina og mun troða upp í verslunarmiðstöðvunum tveim á næstunni.

Það er ekki mikið vandamál að fá það uppúr Arney hverjar hennar fyrirmyndir séu. Celine Dion og Christina Aguilera eru þar ofarlega á blaði.

„Og svo Jóhanna Guðrún, hún er alveg pottþétt."-fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.