Fótbolti

Capello vill fá nýja leikmenn í enska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / AFP

Fabio Capello segir í samtali við enska fjölmiðla að það sé kominn tími á endurnýjun í enska landsliðshópnum.

Englendingar þóttu ekki standa undir væntingum á HM í Suður-Afríku en liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar eftir 4-1 tap gegn Þjóðverjum.

Fjölmiðlar í Englandi hafa sagt að enska liðið sé of gamalt og leikmenn þess hafi verið langt frá sínu besta í Suður-Afríku.

Capello vildi lítið segja um hvaða leikmenn eiga ekki lengur heima í enska landsliðinu en nefndi nokkra sem gætu komið inn í liðið á næstu árum.

„Ég hef rætt um þetta við mitt starfslið," sagði Capello. „Ég held að við munum bæta við tveimur eða þremur leikmönnum í hópinn fyrir EM 2012. Adam Johnson og Kieran Gibbs. Líka Michael Dawson þó svo að hann sé ekki ungur. Aðrir leikmenn eru Gabriel Agbonlahor og Bobby Zamora sem hefur verið meiddur. Það væri líka gott ef Owen Hargreaves myndi jafna sig á sínum meiðslum."

„Bestu ungu leikmennirnir eru allir í U-21 landsliðinu og ekki tilbúnir fyrir HM. En ég vona að á næsta ári eða á næstu sex mánuðum munu fleiri komast í A-landsliðið. Ég vona að Theo Walcott komi til baka og að öxlin hans verði í lagi. Jack Wilshire er líka afar áhugaverður leikmaður."

Hann segir að hann geri sér grein fyrir því nú hvað hafi farið úrskeðis hjá Englandi á HM. „Leikmenn komu þreyttir til Suður-Afríku eftir langt tímabil. Þetta voru ekki sömu leikmennirnir og ég sá í haust og á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það eru of margir leikir á tímabilinu og vildi ég breyta því ef það væri hægt. Þeir eru að spila venjulega tvisvar í viku."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×