Fótbolti

De Jong enn í kuldanum hjá Van Marwijk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nigel de Jong, leikmaður Manchester City, er enn í kuldanum hjá Bert van Marwijk, hollenska landsliðsþjálfarnum.

Van Marwijk tilkynnti í gær landsliðshóp Hollands sem mætir Tyrklandi í vináttulandsleiki þann 17. nóvember næstkomandi.

Van Marwijk setti De Jong úr landsliðinu eftir að sá síðarnefndi tæklaði Hatem Ben Arfa í leik City og Newcastle með þeim afleiðingum að Ben Arfa fótbrotnaði á tveimur stöðum.

Þar að auki átti De Jong ljóta tæklingu í úrslitaleik HM í sumar er hann sparkaði í brjóstkassa Xabi Alonso, leikmanni spænska landsliðsins.

De Jong hefur neitað að viðurkenna að meiðsli Ben Arfa voru honum að kenna og að hann þurfi að breyta leikstíl sínum.

Landsliðsþjálfarinn hitti De Jong í Manchester í gær. „Við töluðum saman en þetta var ekki gott samtal," sagði Van Marwijk í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×