Fótbolti

Spánn og Chile áfram í 16-liða úrslit - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andres Iniesta og David Villa skoruðu mark Spánverja í kvöld.
Andres Iniesta og David Villa skoruðu mark Spánverja í kvöld. Nordic Photos / AFP

Nú er ljóst hvaða sextán lið komust áfram upp úr riðlakeppninni á HM í Suður-Afríku en í kvöld komust Spánn og Chile upp úr H-riðli.

Spánn vann 2-1 sigur á Chile í kvöld og hlutu því bæði lið sex stig. Spánn náði efsta sætinu á markatölu og mætir því grönnum sínum frá Portúgal í sextán liða úrslitunum á þriðjudagskvöldið næstkomandi.

Chile mun fá það erfiða verkefni að mæta Brasilíu á mánudagskvöldið en þeir virtust mjög sáttir við að tapa leiknum í kvöld með þessum mun.

Úrslitin þýddu að Sviss hefði þurft að vinna Hondúras með tveggja marka mun en þeim leik lauk með markalausu jafntefli. Bæði lið fengu góð tækifæri til að skora í leiknum en ekkert varð úr því.

David Villa kom Spánverjum yfir með skrautlegu marki á 24. mínútu. Claudio Bravo, markvörður Chile, fór langt úr eigin vítateig til að stöðva skyndisókn Spánverja en gerði ekki betur en svo að koma boltanum beint fyrir Villa sem skoraði í autt markið af löngu færi.

Andrés Iniesta bætti svo öðru marki við rúmum tíu mínútum síðar með snotru skoti eftir laglega sendingu frá Villa. Um leið missti Chile mann af velli þegar að Marco Estrada fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir að brjóta á Fernando Torres í aðdraganda marksins.

Chile náði þrátt fyrir það að klóra í bakkann með marki Rodrigo Millar í upphafi síðari hálfleiks. Skot hans hafði viðkomu í Gerard Pique, varnarmanni Spánar, en markið reyndist afar mikilvægt því það þýddi að Sviss þurfti þá tvö mörk til að komast áfram á kostnað Chile.

Síðustu mínútur leiksins voru því skrautlegar. Bæði lið hættu að sækja og virtust mjög sátt við stöðu leiksins eins og hún var. Enda komust þau bæði áfram og hefði engu breytt þó svo að Sviss hefði náð að skora eitt mark í blálok leiksins gegn Hondúras.

Samantektir úr leikjunum má sjá með því að smella á Brot af því besta á HM-vef Vísis, undir flipanum VefTV.

16-liða úrslitin líta því svona út:

Laugardagur:

14.00 Úrúgvæ - Suður-Kórea

18.30 Bandaríkin - Gana

Sunnudagur:

14.00 Þýskaland - England

18.30 Argentína - Mexíkó

Mánudagur:

14.00 Holland - Slóvakía

18.30 Brasilía - Chile

Þriðjudagur:

14.00 Paragvæ - Japan

18.30 Spánn - Portúgal






Fleiri fréttir

Sjá meira


×