Fótbolti

Úrúgvæ fyrst í átta liða úrslit - myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Suarez fagnar marki í dag.
Suarez fagnar marki í dag.

Luiz Suarez, leikmaður Ajax, skaut Úrúgvæ fyrst allra liða í átta liða úrslit á HM í Suður-Afríku. Suarez skoraði bæði mörk Úrúgvæ í 2-1 sigri liðsins á Suður-Kóreu. Úrúgvæ mætir Bandaríkjunum eða Gana í átta liða úrslitum keppninnar. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1970 sem Úrúgvæ kemst í átta liða úrslit.

Fyrsta markið kom strax á 8. mínútu leiksins. Það kom þá frábær sending af vinstri kanti frá Diego Forlan á milli varnar og markvarðar Kóreu. Á fjærstöng stóð Luiz Suarez einn og óvaldaður og hann var ekki í neinum vandræðum með renna boltanum í autt markið. Afar slakur varnarleikur hjá Kóreumönnum.

Kóreumenn voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu til að mynda skot í stöng skömmu áður en Úrúgvæ skoraði. Allt kom fyrir ekki og Úrúgvæ leiddi með einu marki í leikhléi.

Suður-Kóreumenn eru þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og þeir jöfnuðu leikinn á 68. mínútu. Aukaspyrna í teiginn, Kóreumenn skalla og boltinn berst til Lee Chung Yong sem skoraði af stuttu færi. Aftur mark eftir lélegan varnarleik.

Lokakaflinn var æsispennandi en Úrúgvæar voru á undan að skora. Aftur var það Suarez en hann kom Úrúgvæ í 2-1 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Kóreumenn fengu heldur betur tækifæri til þess að jafna aftur en voru klaufar fyrir framan markið og þeir hafa því lokið keppni að þessu sinni.

Hægt er að sjá mörkin og tilþrifin úr leiknum hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×