Enski boltinn

Donovan leitaði ráða hjá Beckham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landon Donovan í Everton-treyjunni.
Landon Donovan í Everton-treyjunni. Nordic Photos / Getty Images
Bandaríkjamaðurinn Landon Donovan hefur greint frá því að hann hafi leitað ráða hjá David Beckham áður en hann ákvað að ganga til liðs við Everton á lánssamningi frá LA Galaxy í Bandaríkjunum.

Donovan gagnrýndi Beckham harkalega í fyrra fyrir að framlengja þáverandi lánssamning sinn við AC Milan í stað þess að spila með LA Galaxy frá upphafi tímabilsins í Bandaríkjunum.

„Ef þú færð tvöfalt meira borgað en allir aðrir í deildinni er það minnsta sem hægt er að gera að mæta í leikina og spila," sagði Donovan þá.

En Donovan hefur nú viðurkennt að hann hafði rangt fyrir sér. „Ég hef lært mikið um David. Hann er mjög hógvær og góð manneskja," sagði hann. „Ég gaf honum ekki tækifæri til að sýna það."

„Við höfum að vísu ekki rætt saman nýlega en skipst á SMS-skilaboðum um lánssamninginn minn hjá Everton. Ég held að hann sé spenntur fyrir mína hönd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×