Fótbolti

Forseti franska knattspyrnusambandsins segir af sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jean-Pierre Escalettes á blaðamannafundi með Patrice Evra.
Jean-Pierre Escalettes á blaðamannafundi með Patrice Evra. Nordic Photos / AFP

Jean-Pierre Escalettes, forseti franska knattspyrnusambandsins, tilkynnti í dag að hann muni segja af sér síðar í vikunni.

Franska landsliðið átti hræðilegu gengi að fagna á HM í Suður-Afríku auk þess sem að liðið átti í miklum vandræðum utan vallar. Nicolas Anelka var til að mynda rekinn heim fyrir að rífast við Raymond Domenech landsliðsþjálfara og þá neitaði liðið að æfa einn daginn.

„Ég hef nú íhugað mína stöðu undanfarna viku og ráðfært mig við mína nánustu samstarfsmenn. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hætta sem forseti franska knattspyrnusambandsins," sagði Escalettes í yfirlýsingu sem hann birti í dag.

„Ég ber mína ábyrgð á því sem gerðist og gengst við henni. Ég mun svara því sem ég get varðandi það sem gerðist í Suður-Afríku en fyrst mun ég greina frá því á stjórnarfundi á föstudaginn. Eftir það mun ég afhenda afsögn mína."

Mikið hefur gengið á í Frakklandi síðan að liðið féll úr leik á HM og ljóst að málinu er langt í frá lokið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×