Lífið

Forsprakki Cave In til Íslands

Steve Brodsky, söngvari og gítar­leikari bandarísku rokksveitarinnar Cave In, spilar á Sódómu Reykjavík á fimmtudagskvöld. Brodsky á að baki fimmtán ára feril með Cave In en hefur undanfarin ár látið að sér kveða sem sólótónlistarmaður.

„Hann hefur verið að gefa út sólóplötur undir sínu nafni en hljómsveitin Cave In, sem hann er frægastur fyrir að hafa verið í, er enn þá starfandi," segir Leifur Björnsson, skipuleggjandi tónleikanna.

„Þeir í Cave In voru upphafsmenn þessar emo-stefnu sem hefur verið að tröllríða öllu. Þeir njóta mikillar virðingar, sérstaklega á meðal músíkanta, og hafa farið í stór tónleikaferðalög með böndum á borð við Foo Fighters og Muse."

Efnisskrá tónleikanna á Sódómu spannar allt frá ólgandi krafti áranna með Cave In yfir í melódíska kassagítartónlist, auk þess sem áheyrendur fá að skyggnast inn í sólóferil Brodskys. „Þetta er óumdeilanlega mjög merkilegur náungi. Þessi músík sem hann er að gera í dag er dálítið ólík Cave In. Hún er meira órafmögnuð og lágstemmdari," segir Leifur. - fb

Hér fyrir ofan má sjá myndbandið við lagið Stolen Echoes Won't Return með Brodsky.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.