Lífið

Herbert gefur út tónleika sem hurfu

Herbert hefur gefið út mynddisk með tónleikum sínum í Íslensku óperunni.
Herbert hefur gefið út mynddisk með tónleikum sínum í Íslensku óperunni.
Popparinn Herbert Guðmundsson hefur gefið út mynddisk sem var tekinn upp á tónleikum hans í Íslensku óperunni. Þar söng hann öll sín bestu lög, þar á meðal Svaraðu, Hollywood og að sjálfsögðu Can"t Walk Away.

„Þessir tónleikar voru teknir upp 2002 en svo hurfu þeir,“ útskýrir Herbert.

„Það var rosalega mikið lagt í þetta. Ég var með fimm myndavélar í Óperunni, ég var með strengjasveit og sjónvarpsbílinn á bak við. Þegar tónleikarnir voru búnir var tilbúin upptakan sett í kistu úti í sjónvarpsbíl. Svo þegar átti að fara að skoða „masterinn“ og klippa hann til fannst hann ekki og hefur aldrei fundist,“ segir Herbert. „Við vorum svo heppnir að eiga tökur úr öllum myndavélunum. Það varð að klippa þetta allt aftur og vinna þetta.“

Á disknum eru einnig myndbönd við fimm helstu smelli Herberts. Auk hinna þriggja fyrrnefndu eru þar myndbönd við I Believe in Love og nýja lagið Time sem hefur fengið mjög góð viðbrögð.

Herbert segir að núna hafi verið rétti tíminn til að gefa diskinn út, meðal annars í tilnefni þess að Can"t Walk Away á 25 ára afmæli í ár. „Þessi útgáfa er líka í tilefni þess að maður er ennþá að og nokkuð seigur, með nýjan smell 2010 og allt að gerast,“ segir hann hress og á þar við Time.

Nýtt lag, Treasure Hunt, er einnig komið út og hefur verið í spilun í útvarpi. Bæði lögin verða á nýrri plötu Herberts sem kemur út á næsta ári. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.