Lífið

Jóhanna söng Helga nótt fyrir Monocle

Jóhanna Guðrún ásamt Friðriki Karlssyni í hljóðveri breska tímaritsins Monocle. Jóhanna söng meðal annars Ó helga nótt á íslensku í þættinum.
Jóhanna Guðrún ásamt Friðriki Karlssyni í hljóðveri breska tímaritsins Monocle. Jóhanna söng meðal annars Ó helga nótt á íslensku í þættinum.
„Þeir báðu mig bara um að koma og ég söng þarna fimm lög,“ segir Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona. Breska tímaritið Monocle bauð henni til London til að koma fram í útvarpsþætti tímaritsins sem það heldur úti í ansi glæsilegu hljóðveri sínu.

Starfsmenn Monocle eru ansi hrifnir af Jóhönnu því þetta er í annað sinn sem hún mætir í hljóðverið og syngur, hún gerði slíkt hið sama í fyrrasumar. Jóhanna flaug út strax á mánudagsmorgni eftir að hafa sungið á fernum Jólagesta-tónleikum í Laugardalshöllinni þá helgi. „En maður fær alveg svakalega góða meðhöndlun hjá þeim enda stórt tímarit og svo fékk ég að vinna með Friðriki Karlssyni, ég kalla alltaf í hann þegar ég er í London.“

Jóhanna söng tvö ný lög sem verða væntanlega á nýrri plötu. Og svo íslenska jólalagið Ó helga nótt. „Þeir báðu mig alveg sérstaklega um það, að syngja jólalag á íslensku.“ Söngkonan er ákaflega upptekin í mánuðinum en í kvöld koma Jólagestir Björgvins í heimsókn til Akureyrar. Jóhanna hefur hins vegar síður en svo fengið nóg af ferðalögum því hún hyggst heimsækja nokkrar kirkjur á landinu og halda litla tónleika ásamt kærastanum sínum, gítarleikaranum Davíð Sigurgeirssyni.

„Þetta eiga að vera svona fjölskyldutónleikar með hátíðlegum og poppuðum jólalögum í bland,“ en jólalag sem þau sömdu saman er farið að hljóma á öldum ljósvakans. Þau skötuhjú verða í Reykholti hinn 17. desember og svo verða tónleikar í Keflavík, á Grundarfirði og á Egilsstöðum.- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.