Innlent

Beittu slökkvitæki og níu kílóa sleggju

Breiðholt Árásin átti sér stað í Seljahverfi í Breiðholti seinni partinn í nóvember 2008.Fréttablaðið/vilhelm
Breiðholt Árásin átti sér stað í Seljahverfi í Breiðholti seinni partinn í nóvember 2008.Fréttablaðið/vilhelm

Tveir bræður um fertugt hafa verið ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás í Breiðholtinu í nóvember 2008. Er þeim gefið að sök að hafa beitt við árásina níu kílóa sleggju og slökkvitæki.

Eldri bróðurnum, sem stendur á fertugu, er gefið að sök að hafa ráðist að fórnarlambinu með sleggjunni og slegið það í höfuðið með henni.

Segir í ákærunni að sá yngri, sem er rétt tæplega 38 ára, hafi síðan tekið við og slegið fórnarlambið minnst fjórum sinnum í andlitið með slökkvitæki.

Við þetta hálsbrotnaði þolandinn, hlaut sjö sentimetra skurð á hnakka, skurð á enni og mar á kinnbeinum.

Sá sem fyrir árásinni varð þótti sleppa merkilega vel miðað við áverkana og fékk að fara heim af spítala eftir nokkurra klukkustunda skoðun og aðhlynningu.

Hann krefst eftir sem áður fimm milljóna króna í skaðabætur frá bræðrunum, auk vaxta.

Þrír voru upphaflega handteknir vegna málsins, en einungis tveir eru ákærðir.

Lögregla taldi á sínum tíma að árásin væri hluti af uppgjöri eldri mála. Allir mennirnir höfðu áður komið við sögu lögreglu. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×