Fótbolti

Roy Keane kennir leikmönnunum um

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane lék áður með Manchester United og írska landsliðinu.
Roy Keane lék áður með Manchester United og írska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

Roy Keane segir að það sé ekki við Fabio Capello að sakast um hvernig fór fyrir enska landsliðinu á HM í Suður-Afríku heldur leikmönnunum sjálfum.

Capello hefur verið gagnrýndur fyrir gengi enska liðsins sem féll úr leik í 16-liða úrslitum keppninnar eftir 4-1 tap fyrir Þjóðverjum.

„Fólk er að tala um að þetta séu leikmenn í heimsklassa en það eru þeir ekki," sagði Keane um leikmenn enska landsliðsins.

„Þessir leikmenn þurfa að skoða sinn gang en þeir hafa fengið að komast upp með allt of mikið. Það eru einhverjir sem halda því fram að þeir hafi staðið sig vel í ensku úrvalsdeildinni en það finnst mér ekki."

„Það er líklega aðeins Wayne Rooney sem hefur staðið sig vel. Hann átti frábært tímabil og þó svo að hann hafi ekki enn slegið í gegn með landsliðinu á hann enn möguleika á því."

„Skoðum markverðina. David James féll með Porstmouth og Robert Green rétt slapp frá falli með West Ham. Glen Johnson stóð sig ágætlega með Liverpool en John Terry þurfti að glíma við ýmisleg mál. Mér fannst hann ekki eiga frábært ár."

„Matthew Upson var ekki frábært með West Ham og Ashley Cole er nýbúinn að jafna sig á meiðslum. James Milner átti ágætt tímabil en Gareth Barry var í meðallagi hjá Manchester City."

„Það er algjör fásinna að gagnrýna landsliðsþjálfarann. Hann gerði allt rétt í undankeppninni. Það ætti að láta hann í friði og leyfa honum að sinna sínu starfi. Hann er frábær þjálfari og enska landsliðið er heppið að vera með hann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×