Fótbolti

Fékk milljón dollara fyrir hvern leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eriksson hlær alla leið í bankann.
Eriksson hlær alla leið í bankann. vísir/getty

Það má ýmislegt segja um sænska þjálfarann Sven-Göran Eriksson en hann verður seint sakaður um að kunna ekki að maka krókinn.

Eriksson hefur lokið keppni með landslið Fílabeinsstrandarinnar og eina ferðina enn gengur hann burt frá liði með spikfeitan launatékka.

Hann fékk 3 milljónir dollara fyrir að stýra landsliði Fílabeinsstrandarinnar. Hann tók við liðinu skömmu fyrir mót og stýrði því í raun í aðeins þremur alvöru leikjum. Það gerir milljón dollara á leikinn. Ekki ónýt uppskera það.

Þessi glórulausa launagreiðsla hefur vakið reiði margra. Afrískir þjálfarar eru ekki síst ósáttir.

"Það er einhver lenska í Afríku að afrískir þjálfarar séu aðeins góðir fyrir Afríkukeppnina og að Evrópubúar verði að stýra liðunum á HM. Það er djöfullegt og ég skil ekkert í þessu," sagði Jomo Somo, fyrrum þjálfari Suður-Afríku.

Eriksson tekur nú stutt frí og síðan mun hann hefja leit að næsta launatékka. Hann er sterklega orðaður við Fulham fari svo að Roy Hodgson taki við Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×