Fótbolti

Fjórum dómurum refsað fyrir slæm mistök á HM

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
AFP
Jorge Larrionda og Roberto Rosetti fá ekki að dæma fleiri leiki á HM eftir mistökin sem þeir gerðu á sunnudaginn.

Larrioda sá ekki markið sem Frank Lampard skoraði en skot hans fór greinilega yfir línuna. „Hann var sá eini á vellinum sem sá þetta ekki, fyrir utan kannski aðstoðardómarann," sagði Lampard eftir markið.

Rosetti gaf Argentínu mark þegar Carlos Tevez kom þeim yfir en hann var rangstæður þegar hann skoraði. Reyndar er báðum dómurunum refsað fyrir mistök aðstoðardómara sinna.

Mistökin leiddu til þess að Sepp Blatter, forseti FIFA, sá sig knúinn til að biðja knattspyrnusambönd Englands og Mexíkó afsökunar.

Malímaðurinn Koman Coulibaly sem dæmdi af löglegt mark Bandaríkjanna gegn Slóvenum og Frakkinn Stephane Lannoy sem gaf Kaká glórulaust rautt spjald hafa einnig verið sendir heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×