Fótbolti

Capello fær stuðning frá stjórnarmeðlimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello svarar spurningum á blaðamannafundi.
Fabio Capello svarar spurningum á blaðamannafundi. Nordic Photos / Getty Images
Phil Gartside, stjórnarmeðlimur í enska knattspyrnusambandinu, segist styðja Fabio Capello og að hann eigi von á því að Capello verði áfram landsliðsþjálfari Englands.

Margir hafa gagnrýnt Capello eftir að England féll úr leik á HM í Suður-Afríku eftir að hafa tapað, 4-1, fyrir Þýskalandi í 16-liða úrslitum.

Forráðamenn enska sambandsins sögðust ætla að taka sér tvær vikur í að skoða þessi mál áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið. Capello er þó samningsbundinn í tvö ár til viðbótar og vill halda áfram.

„Við erum með besta manninn í starfið," sagði Gartside sem einnig er stjórnarmeðlimur í Bolton. „Það sem gerðist var ekki honum að kenna. Hann stóð sig vel og þarf að fá að halda áfram. Ég vona að hann haldi áfram og ég reyndar tel að svo verði."

„Þetta snýst ekki um peningana. Við þurfum að vera sterkir. Það eru ekki stuðningsmennirnir sem líkar ekki við hann, það eru fjölmiðlarnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×